
Í heimsókn framkvæmdastjóra Alþjóðasambands samvinnuhreyfinga kom í ljós að hann deilir sameiginlegri reynslu með Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, og þau hafa verið í samskiptum við sama fólkið í viðleitni til þess að auka sanngirni og sjálfbærni í alþjóðlegum viðskiptum.
Jeroen Douglas er mannfræðingur að mennt og lagði einnig stund á guðfræði við háskóla í Nijmegen í Hollandi. Til gamans má geta þess að skírnarnafn hans er borið fram eins og íslenska nafnið Jörun(dur) að „dur“ slepptu. Hann hefur í 35 ár einbeitt sér að stjórnunarstörfum og viðskiptaþróun þar sem megináhersla er lögð á heilbrigð viðskipti með hráefni og landbúnaðarvörur og sjálfbærni samfélaga.
Hann gegndi ýmsum stjórnunarstörfum á vegum samtakanna Solidaridad Network og var forstjóri þeirra til ársins 2023. Á þingi Alþjóðasambands samvinnufélaga í Nýju Delí á Indlandi í nóvember 2024 tók hann formlega við sem aðalframkvæmdastjóri sambandsins.
Á samræðufundi með forseta Íslands á Bessastöðum fimmtudaginn 4. september síðastliðinn vað ljóst að Halla Tómasdóttir og Jeroen Douglas deila sameiginlegri reynslu og hafa átt í samskiptum við sömu stjórnendur alþjóðlegra stórfyrirtækja á liðnum árum. Halla var til að mynda forstjóri B Team þar sem hún starfaði í 6 ár á heimsvísu að sjálfbærni, jafnrétti, jöfnuði og aukinni ábyrgð í forystu. B Team vinnur með stjórnendum fyrirtækja og stjórnmálaleiðtogum að bættu siðferði sem og réttlátum og gegnsæjum reglum fyrir efnahags- og viðskiptalíf.
Þessi sameiginlega reynsla varð grundvöllur fjörugra samræðna á Bessastöðum þar sem forsetinn hafði ýmsar tillögur fram að færa sem til heilla gætu horft.