Samvinnufélögin og Sambandið.

Samvinnufélag er samhjálp til sjálfsbjargar. Samvinnufélag stefnir að þjónustu við félagsmenn og nærumhverfi með almannaþjónustu að leiðarljósi. Samvinnufélög eru hluti félagsgeirans sem arðsóknarlaus samtök og fyrirtæki mynda. Gjarnan starfa samvinnufélög sem mótvægi gegn markaðsbrestum eða ofurefli og fyrir hönd hópa sem standa höllum fæti.

Samvinnufélag er opið til inngöngu og þátttöku miðað við starfssvið sitt og lýtur lýðræðislegri stjórn. Félagsmenn eru þátttakendur en ekki fjárfestar. Arði er ráðstafað með sameiginlegum ákvörðunum félagsins, að verulegum hluta til óskiptilegra sameignarsjóða en einnig, með samvinnureglu, til félagsmanna í samræmi við umsvif á viðskiptareikningi hvers um sig.

Á 2. áratug 21. aldarinnar starfa allmörg samvinnufélög á Íslandi. Mörg þeirra hafa Samband íslenskra samvinnufélaga sem samráðsvettvang. Níu kaupfélög eru starfandi. Eitt þeirra starfar sem  byggðarfjárfestingafélag. Tvö þeirra standa fyrir dótturhlutafélagi sem fer með um 16% smásöluverslunar í landinu og fer, með ýmsum kaupfélögum, með ráðandi hluta smásöluverslunar á landsbyggðinni. Tvö þeirra reka myndarleg útgerðarhlutafélög. Eitt blandað kaupfélag stendur einnig fyrir umsvifamikilli búvöruvinnslu og fiskiðnaði.  Tvö starfa aðeins sem félagslegar einingar.

Auk þessara kaupfélaga eru helstu búvörufyrirtæki landsins samvinnufélög. Ráðandi leigubifreiðastöð í höfuðborginni er samvinnufélag. Allmörg búsetafélög og húsnæðissamvinnufélög starfa víða um land. Sums staðar hefur verið efnt til samvinnurekstrar um heimilisiðn.

Elsta samvinnufélagið var Kaupfélag Þingeyinga, stofnað 1882. Fyrstu kaupfélögin og fyrri tilraunir voru hluti þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga. Síðan fjölgaði kaupfélögum mjög og breiddist þetta úrræði út til allra landshluta, héraða, þorpa og kaupstaða. Víða urðu kaupfélögin fyrsta samkeppnisaflið gegn erlendum kaupmönnum og mótuðu fyrsta markaðskerfi. Þau urðu fjölþætt, fóru með margþættan rekstur, framleiðslu, verslun og ýmsa þjónustu, afurðavinnslu og flutninga. Víðast urðu óskiptilegir sameignarsjóðir ráðandi í kaupfélögunum og þau þannig sameiginlegir alhliða framfara- og þróunarsjóðir byggðanna. Víða í þéttbýlinu voru kaupfélögin einvörðungu smásölufélög.

Samband íslenskra samvinnufélaga var stofnað 1902. Það varð smám saman samnefnari og þjónustumiðstöð kaupfélaganna. Það varð stærsta heildsöluþjónusta landsins, fór með verulegan hluta búvörusölu, fjölþættan iðnað, véla- og bifreiðaverslun, skipaflutninga og lengi með um þriðjung útflutnings sjávarafurða frá Íslandi. Sambandið rak framhaldsskóla, bréfaskóla og bókaútgáfu um skeið og fiskvinnslu og sölufyrirtæki erlendis. Auk þess stóð það fyrir ýmsum dótturhlutafélögum, svo sem í sjávarútvegi og eldsneytisdreifingu og -sölu. Tengt Sambandinu var eitt stærsta almenna tryggingafélag landsins, líftryggingarfélag, lífeyrissjóður, búvélasala, nokkur iðnfyrirtæki, ferðaskrifstofa og sérstakur Samvinnubanki.

Þegar mest var mun um þriðjungur þjóðarinnar hafa verið félagsmenn í samvinnufélögum. Lengi vel voru samvinnustarfsmenn um 14% vinnumarkaðarins á Íslandi. Utan Sambandsins voru umsvifamikil samvinnufélög í búvöruvinnslu, og byggingarsamvinnufélög reistu sambýlishús víða í þéttbýlinu. Miklar samfélags- og fjármálabreytingar og byggðaröskun leiddu loks til þess síðast á níunda áratug 20. aldar að mörg kaupfélögin hurfu af vettvangi og Sambandið hvarf frá öllum rekstri og einingar þess voru færðar í sérstök fyrirtæki, sem eru ótengd því í dag og ekki rekin sem samvinnufélög.

Nokkur rit um samvinnustarf á Íslandi.

 •                Arnór Sigurjónsson. 1944. Íslenzk samvinnufélög.
 •                Benedikt Gröndal. 1959. Íslenzkt samvinnustarf.
 •                Eysteinn Sigurðsson. 1978. Samvinnuhreyfingin á Íslandi.
 •                Gísli Guðmundsson. 1943. Samband íslenzkra samvinnufélaga 1902-1942.
 •                Gunnar Karlsson. 1977. Frelsisbarátta Suður-Þingeyinga og Jón á Gautlöndum.
 •                Helgi Skúli Kjartansson o.fl. 2003. Samvinnuhreyfingin í sögu Íslands.
 •                Jón Sigurðsson. 2015. Samvinnureglur og dæmi meðal nágrannaþjóða. (óbirt handrit)
 •                Jónas Jónsson. 1939. Íslenzkir samvinnumenn.
 •                Odhe, Thorsten. 1939. Samvinnan á Íslandi
 •                Odhe, Thorsten. 1960. Iceland - The Co-operative Island.
 •                Samband íslenzkra samvinnufélaga. 1948- . Ársskýrslur.
 •                Samvinnan, afmælishefti. 1952, 1962, 1977.
 •                Rit um einstök samvinnufélög og samstarfsfyrirtæki, afmælisrit o.fl.

Samantekt/Jón Sigurðsson, 2018