„Ég fagna því að málefni samvinnurekstrar og félagshagkerfisins í heild séu tekin til nýrrar og skapandi umræðu á Íslandi“, sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í kveðju til málþingsins um samvinnurekstur og félagslegthagkerfi í Hörpu 3. september 2025.
Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst 2025 alþjóðlegt ár samvinnufélaga undir kjörorðinu „Samvinna um betri heim“. Þetta er í annað sinn á öldinni sem samvinnufélögum er hampað með þessum hætti – sem varpar ljósi á mikilvægi hreyfingarinnar í þróunarmálum. Undirstrikar hversu veigamiklu hlutverki samvinnufélög gegna í löndum sem eru á leið úr fátækt til
bjargálna.
Við Íslendingar vorum í þessum sporum fyrir ekki svo löngu síðan. Og auðvelt er að færa rök fyrir því að kaupfélögin og samtökin sem þau mynduðu eigi lykilþátt í þeim árangri sem svo náðist. Bændur tóku höndum saman um betri viðskiptakjör. Og hreyfingin öll stuðlaði að uppbyggingu innviða og atvinnulífs vítt og breitt um landið.
Samvinnu lyft upp á alþjóðaári SÞ
Í dag er félagshagkerfið á Íslandi enn umsvifamikið. Þar undir getum við til að mynda talið félagslega drifin fyrirtæki, samvinnufélög, sjálfseignarstofnanir, almannaheillafélög og íþróttafélög. Og vel færi á að efla hér sérþekkingu á því að hvaða leyti aðrir stjórnarhættir og önnur rekstrarhæfni eigi við í þeim geira, heldur en í ríkis- og einkarekstri.
Samband samvinnufélaga í Evrópu hefur nú einsett sér að lyfta samvinnuhreyfingunni upp á Alþjóðaárinu – með fjórum markmiðum. Í fyrsta lagi að auka vitneskju meðal almennings um kosti og möguleika samvinnufélaga. Í öðru lagi að efla samstarf við önnur félagsleg fyrirtæki. Í þriðja lagi að stuðla að því að löggjöf um samvinnufélög verði í takti við nútímann og í fjórða lagi að samvinnufræði verði viðfangsefni í kennslu á framhalds-og háskólastigi.
Undir þessi markmið er hægt að taka. Til að mynda mætti gera félagshagkerfi okkar hærra undir höfði í
kennslu, fræðslu og fræðimennsku. Það er fagnaðarefni að umræða sé nú hafin um möguleika samvinnurekstrar á ýmsum
sviðum, nýjum og gömlum. Ég tel að yfirskrift þessa málþings: „Framtíðarsýn um samvinnu og félagslegan rekstur“, gefi fyrirheit um að jarðvegur sé að skapast fyrir nýja vaxtarsprota á þessum vettvangi.