Pálmi Vilhjálmsson forstjóri MS og Jeroen Douglas í starfsstöð MS á Selfossi.
Pálmi Vilhjálmsson forstjóri MS og Jeroen Douglas í starfsstöð MS á Selfossi.

„Það er þröngt um okkur í Hollandi með 18 milljónir manna og 4 milljónir nautgripa í landi sem er meira en helmingi minna en Ísland.“, sagði Jeroen Douglas, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðasambands samvinnuhreyfingam, í heimsókn til Mjólkursamsölunnar á Selfossi 4. september sl. „Hér hafið þið að minnsta kosti nóg landrými“, sagði hann við gestgjafa sína, og var auðheyrt á samtali hans við þá að hann var vel heima í kúabúskap og mjólkuriðnaði.

Pálmi Vilhjálmsson, forstjóri MS, Ágúst Þór Jónsson, framkvæmdastjóri afurðastöðvar MS á Selfossi, og Björn S. Gunnarsson, þróunarstjóri MS, leiddu Jeroen í allan sannleika um þróun mjólkuriðnaðarins á Íslandi. Honum þótt sérstaklega varið í að fræðast um skipulagið þar sem bændur í samvinnufélögunum Auðhumlu og Kaupfélagi Skagfirðinga rækju MS þannig að félagið hefði fyrir þróunarkostnaði en skilaði að öðru leyti arði sínum til bænda og neytenda í samráði við neytendur og opinbera aðila.

MS hefur komið allri mjólkurvinnslu og skyrgerð fyrir á Selfossi og náð fram mikilli hagræðingu með hágæða vélakosti og góðu starfsfólki. Jeroen Douglas fékk tækifæri til þess að ganga um framleiðslusalina hjá MS sér til mikillar ánægju. Sérstaklega hafði hann áhuga á framleiðslu á Ísey-skyri sem hann segir að sé á borðum heima hjá sér í Hollandi daglega. Nú, eftir að hafa fengið skyr og þjóðlegt brauðmeti hjá Ágústi Þór, gæti hann loksins kennt eiginkonu sinni að borða skyr með rjóma og berjum upp á íslenska vísu.