Hollendingurinn Jeroen Douglas var aufúsugestur Sambands íslenskra samvinnufélaga í tilefni af Alþjóðaári samvinnufélaga á vegum Sameinuðu þjóðanna. Heimsókn hans var af mörgum, sem sóttu afar vel heppnað málþing í Hörpu 3. september sl., talin vítamínsprauta fyrir þá umfjöllun um framtíðarsýn fyrir samvinnu og félagslegan rekstur sem nú er hafin. Auk þess hvatti Jeroen eindregið til þess að Samband íslenskra samvinnufélaga gengi til liðs við Alþjóðasamband samvinnuhreyfinga, en SÍS á nú einungis aðild að Sambandi evrópskra samvinnuhreyfinga.

Aðalframkvæmdastjóri Alþjóðasambands samvinnufélaga setti það rækilega á kortið að samvinnuhreyfingin er öflug og áhrifamikil bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum. Auk þess sýndi hann fram á þýðingu samvinnufélaga í löndum sem eru á leið úr fátækt til bjargálna.


En mesta athygli vöktu þó sláandi tölur hans um framsókn samvinnufélaga í Kína, Indlandi, Indónesíu og annarstaðar í Asíu þar sem eru um 75% allra félagsmanna innan vébanda Alþjóðasamands samvinnuhreyfinga sem telja um 1.1 milljarð í öllum heiminum. Í Brasilíu og Argentínu er hefðin fyrir samvinnufélögum einnig mjög rík.

Framkvæmdastjórinn lagði talsvert upp úr Kondratieff sveiflunni alkunnu, sem kennd er við rússneska hagfræðinginn Nikolai Kondratieff sem tekinn var af lífi að skipan Stalíns. Samkvæmt henni skiptast á 40-50 ára langtímasveiflur sem mótast af framförum vegna tækninýjunga og nýsköpunar. Þær valda mikilli samfélagslegri uppsveiflu og en staðna síðan
og verða upphaf af nýjum sveiflum. Jeroen Douglas telur slík K-straumhvörf vera á döfinni með því að nýfrjálshyggjan hafi runnið sitt skeið og við taki fjölpóla heimur þar sem vitvélar komi til skjalanna og frjálslynt lýðræði sé víkjandi stjórnarform en valdstjórnir og einræði sæki í sig veðrið.

Á slíkum tímum sé hugmyndafræðileg nauðsyn á samvinnufélögum sem hafi lýðræði, fræðslu, sjálfstæði og jafnræði meðal sinna ófrávíkjanlegu grunngilda. Jeroen Douglas sagði Alþjóðasambandið einbeita sér að mannauðsmálum, samvinnu milli samvinnufélaga um hagnýtingu gervigreindar, upplýsingastarfsemi, fjármálasamvinnu og framtíðarþróun. Sérstaka þóttu áhugaverðar frásagnir hans af fjármagnsmarkaði sem er í mótun innan samvinnuhreyfingarinnar (e. COOP Capital Exchange). Þar er um það að ræða að tryggingarfélög og bankar á vegum samvinnufélaga leggji saman verulegt fjármagn í þróun samvinnukauphallar, þar sem samvinnufélög geta sótt sér svokallaða þolinmóða fjármögnun.