Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, flutti merkt og yfirgripsmikið ávarp á opnum fundi í Hörpu 3. september 2025 um þær tvær alþýðhreyfingar sem hann telur vera hinar áhrifamestu og þar með mikilvægustu fyrir framgang efnahagslegs og félagslegs réttlæti í nútímasögunni. Þar á hann við hina alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og Alþjóðasamtök samvinnufélaga (ICA).

„Þótt þessar umbótahreyfingar hafi gengið eftir ólíkum brautum hvíla þær á sameiginlegum grunni; þeirri óhagganlegu afstöðu að reisn, jöfnuður og lýðræði eigi ekki aðeins að móta stjórnmálin heldur einnig sjálfan kjarna efnahagskerfis okkar. Mér sýnist því við hæfi að við hugum að sögu þessara alþýðuhreyfinga, sameiginlegum gildum þeirra og þeim áskorunum sem þær standa andspænis á miklum breytingatímum“.

Í lokin tók Finnbjörn mið af Bjargi íbúðafélagi, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar hefur nú þegar byggt yfir 1100 íbúðir sem tryggja fólki með lágar tekjur öruggt heimili á viðráðanlegu verði. Fleira megi telja, en grunnurinn að þessu öllu sé að í stað þess að taka út arð fari hagnaður í annars vegar uppbyggingu og hins vegar að gera betur við „skjólstæðinga“.

„Tækifærin til að gera betur og á fleiri sviðum eru víða. Félög með félagsleg- og umhverfisvæn markmið sem ætlað er að þjóna sameiginlegum hagsmunum, sem byggja á frjálsri þátttöku og gagnkvæmri aðstoð, lýðræðislegri og /eða þátttökustjórnun og eru frjáls og óháð eru svar við einstaklingshyggjunni og ofurgróða.“

Ávarp forseta ASÍ í heild má lesa hér að neðan.

Alþýðuhreyfingar á umbrotatímum

Ávarp Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, á opnum fundi í Hörpu 3. september 2025 í tilefni alþjóðaárs samvinnufélaga

Ágætu gestir
Það er mér ánægja og heiður að vera með ykkur í dag og fá tækifæri til að ræða hér stuttlega um þau tvö öfl sem ég tel vera þau áhrifamestu og þar með mikilvægustu fyrir framgang efnahagslegs og félagslegs réttlætis í nútímasögunni; þar á ég við hina alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og Alþjóðasamtök samvinnufélaga (ICA).

Þótt þessar umbótahreyfingar hafi gengið eftir ólíkum brautum hvíla þær á sameiginlegum grunni; þeirri óhagganlegu afstöðu að reisn, jöfnuður og lýðræði eigi ekki aðeins að móta stjórnmálin heldur einnig sjálfan kjarna efnahagskerfis okkar. Mér sýnist því við hæfi að við hugum að sögu þessara alþýðuhreyfinga, sameiginlegum gildum þeirra og þeim áskorunum sem þær standa andspænis á miklum breytingatímum.

Afsprengi iðnbyltingar
Verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin eru afsprengi iðnbyltingarinnar, tímabils gríðarlegra breytinga sem höfðu í för með sér áður óþekktan efnahagsvöxt en gátu einnig af sér miskunnarlaust arðrán gagnvart nýrri stétt – verkafólki. Oftar en ekki störfuðu verkamenn við stórhættulegar aðstæður, vinnudagarnir voru langir og fátæktin almenn og mikil á meðan örfáir rökuðu að sér auðæfum.

Við þessar aðstæður urðu þessar tvær hreyfingar til sem vettvangur mótspyrnu en um leið sameinandi vonar. Við skulum jafnan minnast þess hversu mikilvæg og dýrmæt vonin um breyttan heim og betri kjör var verkafólki í árdaga.

Alþjóðlega verkalýðshreyfingin, sem treysti á skipulags- og samtakamátt verkalýðsfélaga, barðist fyrir átta stunda vinnudegi, sanngjörnum launum, öruggum vinnustöðum og síðast en ekki síst rétti vinnandi fólks til að hafa rödd. Frá stofnun Fyrsta alþjóðasambandsins árið 1864 allt til okkar daga og stofnunar Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga (ITUC) hefur hreyfingin barist fyrir réttlæti þvert á landamæri.

Saga samvinnuhreyfingarinnar er ekki síður merkileg. Samvinnuhreyfingin, sem var formlega stofnuð árið 1895 með tilkomu Alþjóðasamtaka samvinnufélaga, á rætur að rekja til verslana sem verkamenn ráku og hugsjónafélaga um gagnkvæma aðstoð og samstarf alþýðufólks.

Frumkvöðlarnir voru handverksmenn – vefarar sem störfuðu í spunaverksmiðjum á Norður-Englandi og stofnuðu árið 1844 fyrsta nútíma samvinnufélagið. Þar með lögðu þeir grunn að samvinnuhreyfingunni. Verkamennirnir sem þarna störfuðu við hörmulegar aðstæður drógu fram lífið í sárri fátækt og höfðu ekki efni á matvælum og öðrum nauðsynjum. Þeir ákváðu að steypa saman þeim fátæklegu björgum sem þeir þó bjuggu yfir í því skyni að fá nauðþurftir keyptar við lægra verði. Í fyrstu var aðeins fernt til sölu í verslun þeirra; hveiti, hafrar, sykur og smjör.

Þannig varð til sú grundvallarhugsun samvinnuhreyfingarinnar að verkamenn gætu rofið vítahring fátæktar og ósjálfstæðis með því að eiga sjálfir vinnustaði sína, verslanir og aðfangakeðjur.

Bæta kjör og og byggja upp valkosti
Því má segja sem svo að frá upphafi vega hafi verkalýðshreyfingin barist við að breyta kjörum vinnandi fólks innan hins kapítalíska hagkerfis og samvinnuhreyfingin leitast við að byggja upp valkosti - lýðræðisleg fyrirtæki þar sem fjármagnið er í eigu þeirra sem þar starfa og einstaklingar taka ekki út hagnaðinn til eigin nota.

Við sjáum því skýra tengingu í uppruna þessara tveggja alþýðuhreyfinga og sameinandi gildismat og hugsjónir.

Þar nefni ég fyrst lýðræði. Samvinnuformið er lýðræðislegt í eðli sínu og það sama á við um skipulag verkalýðshreyfingarinnar – fólkið tekur ákvarðanir sem varða almannahag og miða að því að bæta hann.

Samstaða. Báðar hreyfingarnar hvíla á þeirri grunnhugsun að samstaða geti fært alþýðunni vald og að fjöldinn sé fremur fær um að ná fram réttlæti en einstaklingurinn.

Þá er það jöfnuður og félagslegt réttlæti. Báðar hreyfingar berjast gegn misskiptingu, hvort sem er í launum, eign, aðgengi eða tækifærum.

Menntun og valdefling eru mikilvægir þættir í starfsemi beggja hreyfinga. Áhersla á fræðslu hefur löngum verið einn af hornsteinum alþýðuhreyfinga því að þannig má efla fólk til að krefjast réttinda sinna og skilja og móta þau kerfi sem hafa áhrif á líf almennings.

Loks kemur upp í hugann alþjóðahyggja. Frá upphafi hafa báðar hreyfingar skilið að barátta verkafólks í einu landi er tengd örlögum vinnandi fólks alls staðar. Samvinna þekkir engin landamæri.

Félags- og samstöðuhagkerfið
Við erum í raun ólíkar birtingarmyndir sömu hugsjónar; að félags og samstöðuhagkerfið eigi að þjóna fjöldanum en ekki öfugt; að allir eigi að njóta samfélagslegra gæða.

Báðar geta þessar hreyfingar haft áhrif á stefnumótun og boðið raunhæfa valkosti á móti einkavæðingu, niðurskurði, sérhagsmunavörslu og annarri ógn gagnvart velferð almennings.

Ég nefni nýfrjálshyggju og einkavæðingu. Áratugum saman hafa fjármálaöflin barist af krafti fyrir afregluvæðingu og niðurskurði í opinberum rekstri. Þannig hafa þau skipulega grafið undan almannaþjónustu, ráðist á samningsréttinn og veikt samvinnuformið með því að upphefja samkeppni og sérhagsmunavörslu í þágu hinna auðugu. Við þekkjum áróðurinn hér á landi þegar nýfrjálshyggjan reis sem hæst. Fé án hirðis og hlutdeildarbréfum í samvinnufélögum var breytt í hlutafé og hugsjónin um samvinnurekstur hvarf í skýjum gróðahyggjunnar.

Við þekkjum „gigg“-hagkerfið og mikla fjölgun ótryggra starfa. Þessi starfsemi í krafti tæknibreytinga hefur það beinlínis að markmiði að grafa undan vinnumarkaðslöggjöf og kjarasamningum á sama tíma og kostnaði er varpað yfir á samfélagið.

Loftslagsbreytingar skapa margs konar áskoranir og verkefni fyrir alþýðuhreyfingarnar tvær. Umbreytingin yfir í grænt hagkerfi má ekki fela í sér að ranglæti og arðrán fortíðar verði endurtekið. Verkalýðsfélög og samvinnuhreyfingin verða að berjast fyrir réttlátum umskiptum jafnt í þágu umhverfisins sem vinnandi fólks.

Á alþjóðavettvangi hlýtur athygli okkar að beinast að beinum og óbeinum aðgerðum stjórnvalda í mörgum löndum með óreiðu og ógnarstjórnun til að hefta eða banna starfsemi verkalýðs -og samvinnufélaga jafnvel með þeim rökum að þau séu bein ógn við „þjóðarhagsmuni“.

Merkustu umbótaöflin

Ágætu gestir,

Ég gat þess í upphafi að ég tel verkalýðshreyfinguna og samvinnuhreyfinguna merkustu félagslegu umbótaöfl nútímasögunnar.

Vissulega hafa þessar hreyfingar þróast fram með ólíkum hætti og þótt segja megi að í upphafi hafi þær verið líkar fljóti sem rennur fram í tveimur kvíslum er jafnframt ljóst að þær eru hvergi nærri spegilmyndir hvorrar annarrar.

Á tímum vaxandi ójöfnuðar og ógnar við lýðræðið megum við ekki missa sjónar á mikilvægi þeirrar baráttu, samstöðu og hugsjóna sem hafa mótað og knúið áfram þessar hreyfingar alþýðunnar – almenningur getur ekki treyst á önnur öfl í varðstöðu um hagsmuni sína.

Hér á Íslandi hefur íslensk verkalýðshreyfing verið ötul að skapa aðstæður til að jafna kjör og hlúa að félagsmanninum. Ég nefni húsnæðissamvinnufélögin sem stofnuð hafa verið í gegnum tíðina. Lífeyrissjóðirnir og sjúkrasjóðir eru hluti samstöðuhagkerfis, VIRK starfsendurhæfingarsjóður er sjálfseignastofnun sem stofnaður var með kjarasamningum til þess að tryggja starfsendurhæfingu alls launafólks sem verður fyrir áföllum eða heilsubrests sem hamlað getur atvinnuþátttöku.

Félagsleg ráðstöfun arðs
Bjarg íbúðafélag sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar hefur nú þegar byggt yfir 1100 íbúðir sem tryggja fólki með lágar tekjur öruggt heimili á viðráðanlegu verði. Fleira mætti telja en grunnurinn að þessu öllu er að í stað þess að taka út arð fer hagnaður í annars vegar uppbyggingu og hins vegar að gera betur við „skjólstæðinga“.

Tækifærin til að gera betur og á fleiri sviðum eru víða. Félög með félagsleg- og umhverfisvæn markmið sem ætlað er að þjóna sameiginlegum hagsmunum, sem byggja á frjálsri þátttöku og gagnkvæmri aðstoð, lýðræðislegri og /eða þátttökustjórnun og eru frjáls og óháð eru svar við einstaklingshyggjunni og ofurgróða.

„Samvinna um betri heim“ er sú yfirskrift sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna valdi er ákveðið var að tileinka árið 2025 samvinnuhreyfingum um allan heim. Þessi tileinkun undirstrikar mikilvægi samvinnuhreyfingarinnar á alþjóðavettvangi. Rætur samvinnuhreyfingarinnar liggja djúpt hér á landi og það var vel til fundið hjá stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga að nýta tilefnið í því skyni að auka umræðu um þetta rekstrarform hins félagslega hagkerfis.

Þakka ykkur fyrir.