Jeroen Douglas á málþinginu 3. september.
Jeroen Douglas á málþinginu 3. september.

Samvinnuhugsjónin lifir góðu lífi segir Jeroen Douglas, aðalframkvæmdastjóri Alþjóðasambands samvinnuhreyfinga, í athyglisverðu viðtali sem Óskar Bergsson átti við hann í Morgunblaðinu 5. september 2025.

Í niðurlagi viðtalsins er meðal annars vikið að því hvort samvinnuformið, geti leitt til þess að stjórnendur og lánardrottnar geti tekið félagslegan rekstur yfir og gert hann að sínum. Þar vísar Morgunblaðið áreiðanlega til íslenskrar reynslu. Framkvæmdastjórinn bendir á í svari
sínu að í öllum viðskiptamódelum séu bæði styrkleikar og veikleikar.

„Í samvinnumódelinu getur til dæmis verið of mikið lýðræði og ef það kemur upp ágreiningur þá getur vantað leiðtoga sem þarf að taka af skarið og segja hvert eigi að stefna. Aðrir veikleikar geta verið of náin tengsl og misjafn aðgangur að fjármagni, en það er hægt að vinna bug á þeim.“

Morgunblaðið spyr í framhaldinu hvort samvinnufélög séu betri fyrir smá og meðalstór fyrirtæki en stór fyrirtæki. „Sum fyrirtækin eru mjög stór en það er frekar undantekning en reglan. Það eru þrjár milljónir samvinnufyrirtækja í heiminum og ef þú tækir samanlagðar tekjur þeirra gæfi það alþjóðasambandinu sæti við borð sjö helstu iðnríkja heimsins. Þannig er stærð og umfang þessara fyrirtækja.“

En hverjar eru þá nauðsynlegar forsendur fyrir árangursríku og langvarandi samvinnufélagi sem lifir kynslóð eftir kynslóð. „Þú þarft að hafa vandað fólk við stjórn sem hefur trú á tilgangi félagsins, og reynslan sýnir að það eru 60% meiri líkur á að samvinnufélög verði 100 ára en einkafyrirtæki.“

Lokaspurning Morgunblaðsins er um það hvort hægt sé að segja að samvinnuhugsjónin lifi ennþá góðu lífi? „Ef hægt er að tala um verki þá þjáist samvinnurekstur í heiminum af vaxtarverkjum og með fullri virðingu þá held ég að ég myndi hvergi fá þessa spurningu nema á Íslandi. Ef ég horfi héðan til heimsins þá er þessi rekstur í veldisvexti. Ísland getur horft til heimsins og fengið innblástur alveg eins og heimurinn gat fengið innblástur frá ykkur á sjötta og sjöunda áratugnum.“