Dr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forseti Íslands, lagði á málþinginu „Framtíðarsýn um samvinnu og félagslegan rekstur“ sem haldið var í Hörpu 3. september 2025 að stofnaður yrði fræðslusjóður til þess að byrja upp á nýtt og sannfæra ungt fólk á Íslandi um gildi samvinnuhugsjónarinnar.

Ólafur Ragnar flutti eldræðu á málþinginur og sagði nauðsynlegt að losa sig úr viðjum minnimáttarkenndar vegna þess hve samvinnurekstri hefði hnignað eftir að fríverslun og verðtryggingu hafi verið komið á fyrir hálfri öld.

Horfast yrði hins vegar í augu við þá staðreynd af fullri einurð og gera upp við þá sögu, að forystumenn samvinnuhreyfingarinnar hafi misst sjónar á grundvallarmarkmiðum hennar. Í stað þess að vinna markvisst að hagsmunum félagsmanna á afmörkuð sviðum framleiðslu og viðskipta hafi þeir byggt upp skuldsettan viðskiptahring sem átt hafi sitt undir pólitískum ítökum í valdakerfi landsins.

Kaupfélögin hafi á hinn bóginn átt sinn stóra hlut í nútímavæðingu Íslands og framfarasókn frá fátækt til bjargálna í byrjun 20. aldar svo og í allri lýðræðisþróun í landinu. Á þeim arfi þurfi að byggja nýja sókn enda sé óþarfi að vera með minnimáttarkennd vegna þeirrar sögu.

Samanburður við þá þróun sem sé víðsvegar í heiminum, þar sem samvinnufélög eru í mikilli sókn, sýni að samvinnurekstur geti átt framtíð fyrir sér á Íslandi sem og annarsstaðar. Til þess þurfi að byrja upp á nýtt og beina sjónum að æsku landsins og fræða hana um kosti samvinnuhugsjónarinnar með þeirri samskiptatækni sem ungt fólk notar. Taldi Ólafur Ragnar nauðsynlegt að koma á laggirnar myndarlegum fræðslusjóði sem tæki meðal annars að sér þetta verkefni. Hann sló því fram að hæfilegt upphafsframlag gæti verið til dæmis helmingurinn af því sem eitt kaupfélag hefði sett í rekstur Morgunblaðsins á liðnum árum og bauðst til þess að ljá starfsemi fræðslusjóðsins lið.